10.6.2007 | 22:22
Hvernig geta skólarnir tekið á offituvandamálum barna?
Í kjölfar pistils sem gamli körfuboltaþjálfarinn minn, Karl Jónsson skrifaði í síðustu viku þá varð ég hreinlega að stofna mér aðgang að þessu bloggi til að koma fram mínum pælingum varðandi offitu barna á Íslandi. Pistilinn frá Kalla má finna hér
Áhugi minn á þessu sviði kviknaði í vetur er ég hóf að stunda nám við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík í fyrrahaust. Innan veggja skólans hefur þetta mál verið mikið rætt og er deginum ljósara að eitthvað þarf að breytast í líferni ungmenna hér á landi ef ekki á illa að fara. Staðreyndin er sú að þar spilar skólakerfið sennilega stærsta hlutverkið í því sambandi og langar mig að koma fram nokkrum atriðum sem þurfa að breytast.
Kalli talaði um að fjölga þyrfti íþróttatímum í skólum og verð ég að segja eins og er að ég er fyllilega sammála honum í þeim efnum en málið er ekki svo einfalt. Fleiri þætti þarf að skoða í þessum efnum. Það er hárrétt hjá Kalla að allt of fáir tímar eru notaðir til íþróttakennslu í skólum og ég vona að ég fari rétt með að þeir eru 120 mínútur pr. viku í heildina. Sumir skólar kenna 3x40 mínútur en aðrir 2x60 mínútur. Ef við skoðum þetta út frá skóla sem kennir íþróttir 3x40 mínútur pr. viku þá er gróflega áætlað að nemendur eru aðeins í hreyfingu í 25-30 mínútur í hverjum tíma. Ástæðan er sú að yfirleitt eru íþróttahúsin ekki á skólalóðinni og tekur tíma fyrir börnin að koma sér til kennslu og svo fer auðvitað tími í að klæða sig í íþróttafötin sem getur tekið mislangan tíma eftir einstaklingum. Þegar svo loksins er inn í salinn komið þá þarf að lesa upp nöfn nemenda. Eftir að því er lokið er ekki óalgengt að um 5-10 mínútur af kennslunni hefur verið eytt í enga hreyfingu. Svo þegar líður að lok kennslunnar þá þarf að hleypa nemendum 5 mínútum fyrr út svo þeir mæti á réttum tíma í næstu kennslustund.
Annað sjónarhorn á þetta mál er fjöldi nemenda pr. kennara. 30 nemendur pr. íþróttakennara eru algengar tölur á höfuðborgarsvæðinu og maður spyr sig hvernig á nokkur maður að geta stjórnað 30 nemendum einn síns liðs. Til eru dæmi þess að tveir íþróttakennarar séu með 60 krakka inni í sal í einum tíma. Það er ekki nokkur leið fyrir kennara að starfa við þessar aðstæður og þetta bitnar á heilbrigði nemenda. Í svona stórum bekkjum verður auðveldara fyrir "kyrrsetubörnin" eða anti-sportistana að komast upp með að slaka á í tímanum. Kennarinn nær ekki að virkja öll börnin og það reynist honum erfiðara að hafa yfirsýn yfir virkni barnanna þegar um svo marga nemendur er að ræða.Vandamálin eru mörg í íþróttakennslunni en ég tel að þau eru auðleysanleg. Fyrir það fyrsta þá þarf að bæta aðstöðu íþróttakennara til muna. Er það tilviljun að meðalstarfsaldur íþróttakennara hér á landi séu 5 ár? Flestir íþróttafræðingar velja sér starf í einkageiranum því kjör kennara eru léleg miðað við vinnu og andlegt álag sem þeir þurfa að þola. Stanslaust áreiti, andlegt erfiði, allt of margir nemendur pr. kennara og lág laun í vanþakklátu starfi eru ástæður þess að svo er. Það er líka allt of algengt að íþróttakennarar hafa gefist upp og eru fastir í sömu "rullunni" og eru í raun bara going through the motion í sinni kennslu. Þessir kennarar halda ekki uppi aga og hafa engan metnað fyrir hönd barnanna og eru í raun löngu útbrunnir í starfi. Þetta hefur komið óorði á starfstéttina.
Einnig er starfsvitund íþróttakennara léleg. Það er grátleg staðreynd að aðrir kennarar virðast ekki virða mikilvægi íþróttakennslu í skólum. Ef að barn þarf aukatíma í stærðfræði þá fær það barn yfirleitt frí í leikfimi til þess að bæta stærðfræðikunnáttu sína. Það er mjög algengt að gefið sé frí í íþróttatíma þegar eitthvað annað ber að eins og td. fyrirlesarar á vegum SÁÁ koma í skólann. Það er ákveðin kaldhæðni í því að byrja forvarnarstarfið á því að taka bestu forvörnina frá börnunum sem eru íþróttir og hreyfing.
Síðustu ár hefur orðið lenging á skólaárinu. Þá spyr maður sig af hverju hefur fjöldi íþróttatíma ekki verið aukinn í kjölfarið. Við erum endalaust að bæta við tímum í bóklegum fögum og ekki má gleyma öllum þeim tíma sem við setjum börnin fyrir framan tölvurnar svo að þau verði samkeppnishæf í tæknivæddu samfélagi sem er að slá öll þyngdarmet. Markmiðið virðist vera að láta börnin sitja eins mikið inni í skólastofu eins og hægt er til þess að mata heilann. Það virðist hafa farið fram hjá stjórnendum skólanna að fjöldi rannsókna sýnir fram á að aukin hreyfing eykur getu barna til að meðtaka námsefnið. Já það er rétt, aukin hreyfing eykur gáfurnar.
Ég sagði hérna í upphafi að ég væri sammála Kalla í þeim efnum með að fjölga íþróttatímum. Staðreyndin er hinsvegar sú að það getur reynst erfitt sökum aðstöðuleysis. Íþróttahúsin og sundlaugarnar eru í notkun frá 7-23 alla virka daga og ekki virðist vera hægt að koma fleiri tímum að þar. Einnig þyrfti að fjölga íþróttakennurum og það gæti reynst erfitt miðað við þá staðreynd að nú reynist nógu erfitt að fá menntað fólk til þess að kenna íþróttir í skólum í dag.
Ég tel að lausnin sé aukin hreyfing og þarf hún ekki endilega að vera í formi íþróttakennslu. Mörgum börnum er illa við íþróttir eins og fótbolta og fimleika og upplifa þau sig sem útundan í þeirri kennslu og eru margar ástæður þar að baki. Rannsóknir síðustu ára sýna fram á að flest börn fá meiri hreyfingu í frímínútum en í íþróttakennslu. Öllum börnum finnst gaman að hreyfa sig og við þurfum bara að virkja þau börn sem hafa ekki gaman af íþróttum. Hreyfing á ekki að vera eingöngu bundin við íþróttir. Hættum að loka börnin inni í skólastofu 8 tíma á dag fyrir framan tölvuskjái og hleypum þeim út að leika sér. Göngutúrar í náttúrunni, leikir á skólalóðinni og fleira í þeim dúr er eitthvað sem allir hafa gaman af, bæði nemendur og kennarar.
Ég gæti svosem skrifað meira um þetta en þetta eru svona helstu atriðin sem brenna á mér varðandi þessi efni. Matarræði ungmenna, samvinna íþróttafélaga, skóla og heilsuræktarstöðva eru líka mál sem tengjast þessu en það er efni í annan pistil.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll, velkominn í hóp bloggara, ég er líka nýbyrjaður sjálfur.
Það er flest allt rétt sem þú segir. Að kenna börnum að meta hreyfingu og gera hana að hluta af lífi sínu er gríðarlega mikilvægt. Það eykur hreysti og minnkar líkur á sjúkdómum verulega. Aftur á móti leysir þú ekki offituvandamálið eingöngu með hreyfingu né í skólastofu hjá kennurum.
Offituvandamálið á rætur að rekja til ísskápsins á heimilinu sem börnin alast upp á. Offituvandamálið er fyrst og fremst ofát.
Ef þú velti fyrir þér að 10 mín sundtúr brennir bara 1-2 þurrum brauðsneiðum og að þunguð kona þarf aðeins að bæta við sína daglegu neyslu vegna þungunarinnar einni brauðsneið annað hvort með osti eða skinku.
Aftur er það greinilegt að þeir sem hafa hreyfingu sem lífstíl gæta hófs í mat einnig.
Vinsamlega skrifaðu aðeins styttra mál næst því þú átt erindi og nauðsynlegt að fólk lesi pistlana þína.
Gunnar Skúli Ármannsson, 10.6.2007 kl. 22:50
Fín grein um mikilvægt málefni. Mjög þörf umræða og nauðsynlegt að taka í tauminn áður en fer illa.
Óli G (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 00:39
Gaman að þessu Lýður. Kveikjan hjá mér að þessum pistli var í raun "aðgerðir án orða" en ekki öfugt. Það hellast yfir okkur niðurstöður allskonar rannsókna og skýrslur um þessi mál og við VITUM hvert stefnir samt sem áður finnst mér vanta alvöru viðbröðg.
Ég að sjálfsögðu þekki skólakerfið ekki það vel að ég átti mig á því hversu auðvelt eða erfitt það er að fjölga íþróttatímum, en þarna er þetta kannski spurning um meiri samvinnu íþróttahreyfingar og skóla. Krakkar sem eru á fullu í íþróttum hjá sínu íþróttafélagi 3-5 sinnum í viku, á ekki að þurfa að fara í íþróttatíma í skólanum. Af hverju er ekki hægt að meta íþróttaiðkun í íþróttafélögum inn í skólastarfið? Verði þetta gert, fækkaði þeim krökkum sem þyrftu á íþróttum að halda í skólanum og þar með kæmi hugsanlega svigrúm til að sinna þeim betur og grípa til sértækra aðgerða, því þau börn sem eiga við þetta vandamál að stríða, eru yfirleitt þau börn sem ekki aðhyllast hefðbundnar íþróttagreinar sem íþróttafélögin bjóða upp á.
En ég gæti nú skrifað annað pistil um samvinnu íþróttahreyfingar og skóla, hvað varðar eineltis- og hegðunarmál, en geri það kannski síðar.
Gaman að sjá þig í bloggvinahópnum, þú hefur alltaf eitthvað til málanna að leggja.
Karl Jónsson, 11.6.2007 kl. 08:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.